Skip to main content

Um flugfélagið

Um flugfélagið

Sections
Titill
Saga flugfélagsins
Meginmál

Flugfélagið Ernir var stofnað árið 1970 af Herði Guðmundssyni. Félagið varð brátt mikilvægt í samgöngu- og öryggismálum Vestfirðinga sem lengi bjuggu við erfiðar vegasamgöngur. Skömmu eftir að Flugfélagið Ernir hóf starfsemi sína á Vestfjörðum var komið á fót póstflugi milli allra helstu bæja og þéttbýlisstaða í fjórðungnum. Auk póstáætlunarflugsins stundaði félagið sjúkraflug og stundaði það af krafti um langt árabil, einkum á Vestfjörðum, norðvesturlandi og á norðanverðu Snæfellsnesi.

Leiguflug innanlands var einnig snar þáttur í starfsemi félagsins frá upphafi, og milli landa á árunum frá 1981 til 1992. Á því árabili rak félagið meðal annars flugvél af gerðinni Cessna 404 Titan sem keypt var ný frá Bandaríkjunum 1980. Einkum var flogið til nágrannalandanna, Grænlands, Færeyja og Norðurlandanna með áhafnir skipa, varahluti í skip, verksmiðjur og frystihús.

Árið 1988 hóf félagið útgerð 19 farþega Twin Otter vélar, stærri flugvélar en það hafði áður verið með í rekstri. Jafnframt því að kaupa og reka Twin Otter vélina var byggt yfir hana stórt og vandað flugskýli. Var flugfélagið Ernir fyrsta félagið hér á landi sem byggði yfir starfsemi sína sjálft frá grunni. Um sama leyti og flugskýlið var reist var fjárfest í flugafgreiðslu á Reykjavíkurflugvelli. Hafið var áætlunarflug sem stundað var af krafti á annað ár.

Í framhaldinu var hafið samstarf við flugfélag í Sviss, sem stundar flugflutninga og þjónustu við alþjóðlegar stofnanir og olíufyrirtæki. Ernir tók að sér flug í þróunarverkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna í Kenya seint á árinu 1989. Flugmenn félagsins fóru með Twin Otterinn þangað og störfuðu þar nokkrir tímabundið og með hléum fram á árið 1990. Annað verkefni og samningur tók við þegar þeim fyrri lauk, nú á vegum Alþjóða Rauða Krossins einnig í Kenya. Var það hjálparflug til Suður Súdan vegna borgarastríðsins þar. Unnið var að þessu í um eitt ár með flugvél og mannskap. Næsta verkefni bauðst í Mosambique í formi birgða- og matvælaflutninga á vegum Rauða Krossins í um þrjú ár. Þegar kom fram á 1994 lauk verkefnum í Mosambique og kom flugvélin þá heim eftir gagngert viðhald og endurbætur í Sviss. Um haustið var enn óskað eftir vél okkar og mannskap til hjálparflugs á vegum Rauða Krossins, nú til Angóla þar sem við störfuðum í um eitt ár.

Í kjölfar breytinga í starfsumhverfi innanlandsflugfélaga ákváðu stjórnendur félagsins að hætta rekstri árið 1995. Voru vélar félagsins seldar, en ýmsum öðrum eignum haldið s.s. afgreiðslu á Reykjavíkurflugvelli. Starfsemi félagsins hófst á ný með nýjum áherslum síðsumars 2003.

Nokkur ártöl í rekstri Ernis

1970 Flugfélagið Ernir stofnað á Ísafirði

1988 Áætlunarflug hefst á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar

1989 Flug fyrir Rauða Krossinn í Kenía og suður Súdan

1991 Flugfélagið flýgur með birgðir og hjálpargögn í Mósambik

1994 Birgðaflug í Angóla á vegum Rauða Krossins

1997 Þá flugu Ernir, bók um flugfélagið gefin út

2003 Skrifstofur félagsins færðar frá Ísafirði til Reykjavíkur

2007 Ernir hefur áætlunarflug til Bíldudals, Gjögurs, Sauðárkróks og Hafnar í Hornafirði

2010 Flugfélagið Ernir fagnar 40 ára afmæli

2010 Áætlunarflug hefst á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja

2012 Áætlunarflug hefst á milli Reykjavíkur og Húsavikur

2018 Flugfélagið Ernir tekur í notkun 32 sæta Dornier 328 skrúfuþotu

2020 Flugfélagið Ernir fagnar 50 ára afmæli

Titill
Flotinn okkar
Meginmál

Jetstream 31/32

Við gerum út þrjár Jetstream 32 vélar og eina Jetstream 31 vél sem eru hraðfleygar skrúfuþotur. Þessar flugvélar henta einkar vel í leiguflug fyrir allt að 19 farþega, bæði innanlands og til Grænlands, Færeyja og Skandinavíu.

Jetstream 32

 

Dornier 328

Flugfélagið Ernir tók eina Dornier 328 í notkun í nóvember 2018 en hún er hraðfleyg og sparneytin skrúfuþota. Þessi vél tekur allt að 32 farþega og getur lent á stuttum flugbrautum hvort sem er innanlands eða á erlendri grund.

Dornier 328